Jafnréttisstefna Alvotech var samþykkt og kynnt í janúar 2021 ásamt aðgerðaáætlun. Markmið jafnréttisstefnu Alvotech er að tryggja starfsfólki jöfn tækifæri óháð kyni, aldri, trúarbrögðum þjóðerni, kynþætti, fötlun, kynhneigð eða stjórnmálaskoðanum og koma í veg fyrir mismunun eða áreitni á grundvelli þessara eða annarra óviðkomandi þátta.
Stefnan er sett fram til að tryggja að allt starfsfólk sé metið á eigin forsendum og að hæfileikar og mannauður fái að njóta sín. Stefnan miðar einnig að því að vinna gegn staðalímyndum varðandi kyn. Enn fremur er áætluninni ætlað að stuðla að sem jöfnustu kynjahlutfalli í sambærilegum stöðum og nefndum hjá fyrirtækinu.
Vottunin kemur í kjölfar ítarlegs ferlis þar sem komið er á fót viðeigandi stefnumótun, verklagsreglum og eftirfylgni. Þótt áhersla verkefnisins sé á starfsemina á Íslandi og það að uppfylla íslensk lög og reglur um jafnrétti kynja á vinnumarkaði, þá mun afrakstur þess hafa áhrif á starfsemi Alvotech um allan heim.
„Það má segja að Alvotech sé nú útflytjandi íslenskra jafnréttislaga. Þetta er áfangi sem við getum öll verið stolt af og styður það markmið okkar að vera eftirsóknarverður vinnustaður fyrir alla, þar sem jöfn tækifæri eru lykilþáttur í allri okkar starfsemi,“ segir Sigríður Elín Guðlaugsdóttir, mannauðsstjóri Alvotech.