Kaupa 17% hlut

Aztiq eykur hlut sinn í Alvogen í Bandaríkjunum

Aztiq og Alvogen

Aztiq Pharma Partners hefur lokið fjármögnun upp á 12,4 milljarða króna (100 milljóna Bandaríkjadala). Fjarmagnið er notað til að fjárfesta frekar í Alvogen í Bandaríkjunum. Það var bandaríski fjárfestingabankinn Morgan Stanley sem hafði umsjón með fjármögnuninni og tóku alþjóðlegir fagfjárfestar þátt í henni.

Árið 2017 útvíkkaði Alvogen í Bandaríkjunum starfsemi sína og stofnaði Almatica Pharma. Almatica leggur höfuðáherslu á að þróa, framleiða og markaðssetja ný tauga-og geðlyf með verkun á miðtaugakerfið. Lyf Almatica mæta þörfum sjúklinga sem núverandi lyf á markaði gera ekki. Markmiðið er að auka aðgengi sjúklinga að nýjum lyfjum sem bæta heilsu þeirra og líðan.

Fjármagnið sem nú kom inn nýtti Aztiq í að kaupa 17% hlut í Alvogen í Bandaríkjunum á gengi sem jafngildir því að eiginfjárvirði fyrirtækisins fyrir aukninguna hafi verið 43 milljarðar króna (350 milljónir Bandaríkjadala).

Eiginfjáraukningin gerir Almatica og samheitalyfjafyrirtækinu Alvogen kleift að fjárfesta í frekari rannsóknum, þróun og sölu á lyfjum í Bandaríkjunum.

Lisa Graver, forstjóri Alvogen í Bandaríkjunum.

Alvogen í Bandaríkjunum hefur verið í 100% eigu Alvogen Lux Holdings. Eftir kaup Aztiq Pharma Partners á Alvogen í Bandaríkjunum heldur Aztiq Pharma Partners samanlagt, beint eða óbeint, á um það bil 40 prósenta hlut í fyrirtækinu.

Það eru spennandi tímar framundan hjá Alvogen í Bandaríkjunum

Róbert Wessman, einn aðaleigandi Aztiq.

„Við erum mjög spennt að taka þátt í þessu verkefni en á næstu 24 mánuðum koma mörg lyfjanna á markað þar vestra. Markmið Aztiq er að auka aðgengi fólks um allan heim að lyfjum á viðráðanlegu verði sem bætir líðan þeirra og heilsu. Fjárfestingar Aztiq í Alvogen í Bandaríkjunum er liður í þeirri vegferð og gefur félaginu tækifæri á að fjárfesta enn frekar í rannsóknum, þróun, sölu og markaðssetningu lyfja á Bandaríkjamarkaði,“ segir Róbert Wessman.

Lyfjaglös

Aztiq Pharma Partners

Aztiq Pharma Partners er langtímafjárfestir sem leggur áherslu á fjárfestingar í lyfjaiðnaði. Stærstu eignir Aztiq eru í lyfjafyrirtækjunum Alvogen, Alvotech og Lotus. Fjárfestingahópurinn samanstendur af einstaklingum og alþjóðlegum fjárfestingasjóðum.

Alvogen

Alvogen er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki og leggur áherslu á þróun, framleiðslu og sölu á samheitalyfjum, vörumerkjum og lausasölulyfjum um allan heim. Starfssemi fyrirtækisins er í um 20 löndum og hjá því starfa um 1.700 manns. Alvogen rekur fjórar framleiðslu- og þróunarmiðstöðvar í Bandaríkjunum, Kóreu og Taívan. Forstjóri Alvogen er Róbert Wessman.