Róbert Wessman skrifar

Þess vegna á ég mér enga fyrirmynd

Alvogen Awards

Nýlega spurði blaðamaður mig að því hverjar væru fyrirmyndir mínar, fólkið sem veitti mér innblástur og mótaði starf mitt. Þegar ég velti fyrir mér svarinu nefndi blaðamaðurinn nöfn á borð við Warren Buffet, Bill Gates og Elon Musk sem mögulega valkosti. Þótt þeir séu vissulega eftirtektarverðir og hafi afrekað margt finnst mér samt ekki eins og þeir hafi mikil áhrif á það sem ég geri.

Satt að segja hef ég aldrei velt því mikið fyrir mér hverjar fyrirmyndir mínar eða átrúnaðargoð eru. Kannski hefði ég gert það ef ég hefði varið meiri tíma í að lesa bækur um þekkta leiðtoga í viðskiptaheiminum en lesblinda mín hefur komið í veg fyrir það.

Það gæti líka skýrt hvers vegna ég laðast svo að fólki. Richard Branson, sem einnig glímir við lesblindu, lýsti því nýlega svona: „Ef þú glímir við námsörðugleika þá verður þú mjög góður í verkaskiptingu. Þú veist hvar veikleikar þínir og styrkleikar liggja og þú tryggir að þú finnir frábært fólk til að stíga inn og sinna þínum veikleikum.“

Svar mitt til blaðamannsins var að lokum augljóst:

Ég sæki innblástur til þess frábæra fólks sem ég vinn með á hverjum degi, bæði fólks sem ég þekki vel og þeirra sem ég er að hitta í fyrsta sinn og þekki alls ekki.

Fólk, frá öllum kimum mannlífsins, veitir mér innblástur með ólíkum skoðunum, hugmyndum og sjónarhornum.

En, hvernig fæ ég að sjá það besta í fólki?

Það er ekki alltaf sem maður fær færi á því að sjá það besta í fólki, hvort sem það er fólk sem maður þekkir eða ókunnugir. Hins vegar lít ég þannig á að allar manneskjur hafi sínar grunnþarfir – ein vanmetnasta grunnþörf allra manneskja er þörfin fyrir virðingu og viðurkenningu.

Allir vilja njóta virðingar. Allar manneskjur vilja að á sig sé hlustað. Allir hafa eitthvað að segja og allilr hafa hlutverk í margslungnum heimi okkar. Fjölbreytni bætir lit og fegurð í líf okkar. Það að meðtaka það allt bætir okkur sem manneskjur, sem vini og sem viðskiptamenn.

Frá mínum bæjardyrum séð er ég svo heppinn að fá að hitta fyrirmyndir mínar á hverjum degi. Það að læra af þeim krefst þess oft að hlusta frekar en tala. Ef þér tekst að kalla fram það besta í fólki þá mun þig aldrei skorta hvatningu.