Markmið

Að bæta líf og heilsu fólks

Róbert Wessman og Birna Þórarinsdóttir, kick-off,  unicef

Alvotech og Alvogen gefa 100 þúsund Bandaríkjadali til UNICEF í baráttunni við COVID-19

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech og forstjóri Alvogen, skrifuðu í gær undir samstarfssamning þess efnis að fyrirtækin gefa 100 þúsund Bandaríkjadali, eða rúmar 12,7 milljónir króna, til baráttu UNICEF við kórónaveiruna. Stuðningurinn verður nýttur í þátttöku samtakanna í COVAX-samstarfinu þar sem UNICEF gegnir lykilhlutverki í að koma bóluefnum til yfir 90 lág- og millitekjuríkja.

„Það hefur sérstaka þýðingu fyrir okkur hjá Alvo-fyrirtækjunum að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og fellur einstaklega vel að því hlutverki okkar að bæta líf og heilsu einstaklinga út um allan heim og auka aðgengi að hágæða lyfjum, óháð búsetu og efnahag,“ sagði Róbert við undirritun samningsins.

„Það var einstaklega ánægjulegt að kynna stuðning okkar við verkefnið á fundi með yfir 2.000 starfsmönnum Alvo-fyrirtækjanna um allan heim í dag. Ég vil, fyrir hönd starfsmanna fyrirtækjanna, þakka Unicef og Covax fyrir þeirra mikilvæga starf og fyrir að gefa okkur tækifæri á að leggja þeim lið.“

Róbert Wessman

Á hverju ári bólusetur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hátt í helming allra barna í heiminum. Þrátt fyrir að COVAX-samstarfið snúist ekki um að bólusetja börn þá nýtir UNICEF nú sérþekkingu sína í bólusetningum til að takast á við þetta sögulega verkefni enda hefur veiran umturnað lífi barna um allan heim.

„Við erum Alvo-fyrirtækjunum innilega þakklát fyrir þennan mikilvæga stuðning. Kórónaveirunni verður ekki útrýmt nema við útrýmum veirunni í öllum löndum heimsins,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, gegnir lykilhlutverki í COVAX-samstarfinu sem tryggja á jafna dreifingu bólu­efn­is gegn kórónaveirunni meðal efnaminni ríkja heims­. Verkefnið er leitt af WHO, GAVI og CEPI. COVAX-samstarfið vinnur bæði með stjórnvöldum og framleiðendum til að tryggja sanngjarnan aðgang að bóluefnum og þar leiðir UNICEF innkaup og afhendingu á bóluefnunum og sprautum til yfir 90 lág- og millitekjuríkja. Auk þess sjá UNICEF og samstarfsaðilar um að útbúa leiðbeiningar um verklag sem þarf fyrir örugga framkvæmd bólusetninga, þjálfun heilbrigðisstarfsfólks og að byggja upp traust til bólusetninga í samfélögunum.

„Vernda þarf þá staði sem hafa veikustu heilbrigðiskerfin og tryggja að enginn verði skilinn eftir í baráttunni gegn heimsfaraldrinum. Það er markmið verkefnisins.“

Markmið COVAX-samstarfsins er að tryggja tvo milljarða skammta af bóluefnum fyrir lok ársins 2021. Eftir margra mánaða undirbúning eru bóluefni, sprautur og annar búnaður farið að berast. Bóluefni á vegum COVAX-samstarfins hafa nú meðal annars borist til Ghana, Fílabeinsstrandarinnar, Kambódíu, Súdan, Rúanda og Senegal. Fleiri ríki munu bætast í hópinn á næstu dögum og vikum. Hægt er að fylgjast með þróun bóluefna gegn COVID-19 og árangri COVAX-samstarfsins í nýju mælaborði sem UNICEF hefur hleypt af stokkunum.