Róbert Wessman ræðir Alvotech

Alvotech bygging

Alvotech stefnir á að markaðssetja nýtt líftæknihliðstæðulyf innan tveggja ára. Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, segir að útflutningstekjur fyrirtækisins verði orðið töluverður hluti vergrar landsframleiðslu Íslands innan fárra ára.

Í viðtali við Kastljós 10. febrúar 2021 ræddi Róbert Wessman vaxtarmöguleika Alvotech og mikilvægi þess fyrir íslenskan efnahag.

Róbert sagði að framtíðarsýn Alvotech, sem mótuð var árið 2012, feli í sér að eftir 2020 verði öll mest seldu lyf heims líftæknilyf og að Alvotech muni framleiða hliðstæðulyf þeirra þegar viðkomandi einkaleyfi renna út. „En gallinn er sá að þau kosta miklu meira, það er ekki á færi allra að kaupa þessi lyf. Í Bandaríkjunum getur gigtarlyf kostað einstakling 50-100.000 dollara á ári,“ sagði Róbert Wessman í samtali við Kastljós.

Alvotech er fyrst hliðstæðulyfjaframleiðenda til að senda inn til skráningar samheitalyf líftæknigigtarlyfsins Humira. Það er mest selda lyf í heimi og í Bandaríkjunum er velta þess 15-16 milljarðar dollara á ári. Alvotech hefur gert langtíma samstarfssamninga við samheitalyfjafyrirtæki um allan heim. „Þannig að þegar við erum klár í að framleiða þá fer lyfið á markað alls staðar.“

Lyfið verður framleitt í nýju hátæknisetri fyrirtækisins í Vatnsmýri. Róbert segir að ef áætlanir gangi eftir gæti framleiðsla Alvotech orðið ein af undirstöðum íslenskrar gjaldeyrisöflunar á árunum 2026-27.