Fasteignafélagið Eyjólfur, í eigu fjárfestingafélagsins Aztiq, og Alverk hafa undirritað samning um uppsteypu og frágang utanhúss vegna stækkunar hátækniseturs Alvotech í Vatnsmýri.
Stækkunin nemur um 12.600 m² og fer nærri því að tvöfalda núverandi húsakynni Alvotech í Vatnsmýri.
Umsvif Alvotech fara ört vaxandi og því nauðsynlegt að stækka húsnæði fyrirtækisins til að undirbúa framleiðslu og markaðssetningu líftæknilyfja. Í nýrri viðbyggingu við hátæknisetrið verður aðstaða fyrir rannsóknir líftæknilyfja, lyfjaframleiðslu, lyfjapökkun og lagerrými.
Viðbyggingin mun einnig styrkja samstarfið við Háskóla Íslands sem verður með aðstöðu fyrir meistaranám HÍ í iðnaðarlíftækni í húsinu. Þá eykur það möguleikann á að bjóða mestaranemum starfsnám innan fyrirtækisins.
Verkefni Alverks felst í uppsteypu og frágangi utanhúss vegna stækkunarinnar. Byggingin verður fjórar hæðir auk kjallara, alls 12.600 m². Samið hefur verið við IBO í Danmörku um efniskaup vegna glugga og klæðningar fyrir um 300 milljónir króna. Áætlaður kostnaður við uppsteypu og frágang er því rúmlega tveir milljarðar króna og heildarkostnaður viðbyggingarinnar er áætlaður milli fimm og sex milljarðar króna. Heildarfjárfesting Aztiq vegna uppbyggingar Alvotech á Íslandi voru rúmlega 100 milljarðar króna í árslok 2020.