Viðtal við Róbert Wessman í Fréttablaðinu

Uppbygging Alvotech

Robert Wessman

Væntanlegar milljarða dollara tekjur

Alvotech hefur nú, tæplega tíu árum eftir stofnun, tvöfaldað tekjur sínar milli ára og á næsta ári er gert ráð fyrir að þær aukist enn. Um er að ræða áfanga greiðslur tengdar þróun hliðstæðum líftæknilyfja þar sem samstarfsaðilar Alvotech greiða allt að 130 milljarða króna fyrir aðgang að lyfjahugviti Alvotech. Við það munu svo bætast sölutekjur vegna hliðstæðulyfjanna sem um ræðir.

Alvotech vinnur að þróun sjö líftæknilyfja og þar á meðal er hliðstæða söluhæsta lyfs heims, Humira. Alvotech er fyrst fyrirtækja til að skrá líftækni hliðstæðu af nýrri útgáfu Humira hjá bandaríska lyfjaeftirlitinu og miklar vonir eru bundnar við markaðssetningu þess lyfs í Bandaríkjunum. Þar standa nú yfir málaferli vegna ásakana um stuld á trúnaðarupplýsingum sem Alvotech hafnar og reiknar með að fá samþykki fyrir lyfinu fyrir árslok 2021.

Eins og Róbert Wessman rekur í viðtali við Fréttablaðið var það alls ekki sjálfgefið að stofna félagið og byggja upp starfsemi þess á Íslandi, sérstaklega í ljósi gjaldeyrishafta sem þá voru í gildi. Heildarfjárfestingar Alvotech eru nú um 100 milljarðar króna, sem er í samræmi við upphaflegar áætlanir um að það myndi taka um 10 ár að koma fyrsta lyfinu á markað og að til þess þyrfti rúmlega 100 milljarða króna fjárfestingu. Lyf sem fyrirtækið selur í Bandaríkjunum og Evrópu verða framleidd á Íslandi. Fram kemur í frétt blaðsins að gera megi ráð fyrir að útflutningstekjur af starfseminni geti árið 2027 numið allt að 120 milljörðum króna. Við það yrðu skatttekjur ríkissjóðs á bilinu 15-20 milljarðar króna, auk skatttekna vegna launagreiðslna Alvotech.

Í viðtalinu er einnig rædd uppbygging systurfyrirtækisins Alvogen og hraður vöxtur þess á sviði samheitalyfja, þrátt fyrir miklar áskoranir við fjármögnun skömmu eftir hrun á fjármálamörkuðum. Alvogen vinnur nú að þróun á eigin frumlyfjum og fyrsta frumlyfið kemur á markað í ár. Loks segir Róbert stuttlega frá því hvernig hann kom inn í lyfjageirann, þar sem örlagaríkt peningakast kemur meðal annars við sögu.

Hægt er að lesa viðtalið í heild á vef Fréttablaðsins.