Frumkvöðullinn

Róbert er stoltur af starfi sínu sem frumkvöðull og stofnandi fjölmargra íslenskra fyrirtækja. Hann er þekktur sem brautryðjandi á sviði líftæknilyfja og gegnir starfi forstjóra og stjórnarformanns Alvotech. Róbert er jafnframt stjórnarformaður Alvogen, Lotus Pharmaceuticals og Adalvo.

Frumkvöðullinn

Undanfarin 25 ár hefur Róbert byggt upp orðspor sitt á heimsvísu sem leiðtogi á sviði samheitalyfja og líftæknilyfja með því að stofna og þróa fyrirtæki með eitt markmið að leiðarljósi: að bæta líf fólks og auka aðgengi að lyfjum á viðráðanlegu verði. 

Róbert hefur stofnað og stýrt fjölda svokallaðra einhyrninga — alþjóðlegra fyrirtækja metinna á meira en milljarð bandaríkjadala — sem öll einbeita sér að því að bæta aðgang að bestu meðferðarúrræðunum. Meðal þessara fyrirtækja eru framleiðendur og dreifingaraðilar samheitalyfja á borð við Actavis, Alvogen, Medis, Adalvo og Lotus auk líftæknifyrirtækisins Alvotech. Afrek hans hafa í þrígang verið viðfangsefni greininga við Harvard Business School.

Við lifum á tímum ótrúlegra framfara í læknisfræði en það er ekki hægt að kalla eitthvað kraftaverkalyf nema að það sé aðgengilegt öllum sem þurfa á því að halda. Ég vinn að því að gera það að veruleika.

Róbert Wessman

Tilgangur

Róbert er fæddur og uppalinn á Íslandi. Hann gekk í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og lauk BA-prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Árið 1999, þegar hann var 29 ára, lét Róbert af störfum hjá íslensku skipafélagi í Hamborg og sneri aftur til Íslands til að taka við sem forstjóri nánast gjaldþrota lyfjafyrirtækis, Delta. Með sameiningu við annað íslenskt lyfjafyrirtæki varð Actavis til. Þegar Róbert hætti sem forstjóri árið 2008 hafði Actavis vaxið og orðið þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Róbert hefur allar götur síðan verið leiðandi í nýsköpun og vexti á sviði lyfjaþróunar.

Árið 2009 teiknaði Róbert upp viðskiptaáætlun Alvogen á servíettu á veitingastað. Á tíma þar sem aðgangur að fjármagni var mjög takmarkaður safnaði Róbert saman hópi fjárfesta til að kaupa og endurvekja bandarískt lyfjafyrirtæki sem var í rekstrarvanda. Með stofnun nýrra fyrirtækja, yfirtöku annarra í Austur-Evrópu og Asíu og fjölda dreifingarsamninga óx Alvogen hratt og varð að leiðandi alþjóðlegu samheitalyfjafyrirtæki. Alvogen framleiðir hundruð lyfja sem seld eru í fjórum heimsálfum og er metið á nokkra milljarða bandaríkjadala. Alvogen hefur hlotið fjölda verðlauna innan greinarinnar fyrir starf sitt við að auka aðgengi að lyfjum, þar á meðal CPhI Company of the Year.

Saga árangurs

Alvogen, leitt af Róberti og í meirihlutaeigu CVC og Temasek, er í dag öflugt á sviði samheitalyfja í Bandaríkjunum. Fyrirtækið sérhæfir sig í lyfjum sem erfitt er að framleiða og rekur sprautulyfjadeildina Almaject. Eftir meira en áratug af samfelldum vexti eru fyrrum dótturfélög þess, Lotus (með aðsetur í Taívan) og Adalvo (með aðsetur á Möltu), nú orðin stórfyrirtæki og gegnir Róbert stjórnarformennsku allra þriggja.

Árið 2009, á sama tíma og hann stofnaði Alvogen, stofnuðu Róbert og hópur samstarfsmanna og fjárfesta Aztiq, félag sem einbeitir sér að fjárfestingum í lyfjaþróun og heilbrigðistengdum greinum. Samhliða öðrum verkefnum hefur Aztiq fjárfest í og stutt þróun fyrirtækja sem Róbert hefur stýrt til að hámarka bæði ávinning fyrir sjúklinga og verðmætasköpun eftir því sem þessi fyrirtæki hafa vaxið.

Árið 2013 færði Róbert áhersluna frá samheitalyfjum yfir í líftæknilyf við stofnun Alvotech. Fyrirtækið, sem hefur aðsetur í Reykjavík, var hugsað af Róberti sem sjálfstætt félag byggt upp frá grunni: sjálfstætt, óháð og fullsamþætt líftæknilyfjafyrirtæki með eigin rannsókna- og þróunarstarfsemi og framleiðslu. Þessi samþætting styður við þær aðferðir sem hafa einkennt rekstur fyrirtækja undir stjórn Róberts og má þar nefna nákvæmt eftirlit með gæðum, framleiðslu og kostnaði og aukið svigrúm fyrir ört stækkandi vöruþróunarlínu.

Eftir hartnær áratug og milljarð bandaríkjadala í fjárfestingu, þar á meðal með stuðningi Alvogen og Aztiq, setti Alvotech sín fyrstu lyf á markað. Snemma árs 2025 hafði fyrirtækið gert sölusamninga sem náðu til allra helstu markaða heims og fyrstu tvö lyfin höfðu hlotið samþykki í Bandaríkjunum, innan Evrópusambandsins og víðar. Alvotech er skráð á Nasdaq undir tákninu ALVO og hefur yfir 500 starfsmenn í höfuðstöðvunum í Reykjavík auk nokkurra minni R&D- og framleiðslustöðva í Evrópu og Indlandi.

Þegar ég lít til baka sé ég að ég var heppinn að fá að vera hluti af frábæru teymi með mörgum hæfileikaríkum einstaklingum.

Róbert Wessman